Um mig

Um mig

Ég heiti Kristín Þórsdóttir en er alltaf kölluð Stína.  Ég er móðir þriggja barna sem láta mér ekki leiðast ásamt því að vera hluti af stórri og léttgeggjaðri fjölskyldu.  Kostir mínir eru margir en mér er lýst sem afar hreinskilni, opinni, hressri, traustri og skapandi manneskju. Ég elska ekkert meira en að hlægja af lífs og sálarkröftum en er nú samt langt frá því að vera fullkomin, en hvað er svo sem fullkomnun?

Ég útskrifaðist sem hársnyrtir árið 2007 og var handviss um að þar væri ég komin til að vera. Þegar ég var þrítug ákvað ég að gefa mér Dale Carnegie námskeið í afmælisgjöf. Ástæða þess var að ég gat ekki staðið fyrir framan fleiri en þrjár manneskjur í einu án þess roðna og stama. Ég sé alls ekki eftir því, enda hef ég ekki þagnað síðan.

Maðurinn minn, Kiddi, greindist með krabbamein árið 2006 og er óhætt að segja að sá tími hafi þroskað mig mikið sem manneskju. Við vorum öflug að vekja athygli á ungu fólki og krabbameini og sat ég í stjórn Krafts í tvö ár, þ.á.m. eitt ár sem varaformaður. Kiddi lést árið 2017 eftir 11 ára baráttu. Ef það var eitthvað sem Kiddi minn kenndi mér var það að lífið er of stutt til að njóta þess ekki.

Síðastliðið haust var ég stödd á tímamótum og vissi ekki hvaða stefnu ég ætti að taka í lífinu. Ég hafði lengi hugsað um að fara í nám en vissi ekki hvað það ætti að vera. Það var þá sem að vinkona mín sagði mér frá markþjálfunarnámi hjá Evolvia. Mér fannst ég ekki hafa neinu að tapa og skráði mig í námið. Í dag er ég útskrifaður ACC markþjálfari.

Það er minn eldmóður að aðstoða fólk við að vaxa og ná markmiðum sínum.

Bestu kveðjur,
Stína

Tímabókanir í síma: 693-7224 eða sendu mér fyrirspurn.

Hafðu samband

Umsagnir viðskiptavina

«Markþjálfun hjá Stínu er algjört dúndur. Hún hefur hjálpað mér mikið að einfalda hlutina og öðlast betri yfirsýn með góðri markmiðasetningu og tímastjórnun. Stína er ótrúlega góður hlustandi, hefur skýra sýn og einfaldlega setur hlutina á þann stað sem þeir eiga að vera. Að eiga hana að er ómissandi fyrir sveimhuga eins og mig sem ætla sér að sigra heiminn á korteri með því að gera þúsund hluti í einu. Að fara í markþjálfun til Stínu er eins og sálfræðitími, skipulagsnámskeið og trúnó við vinkonu allt á sama tíma. Ef þú vilt gera vel við sjálfa/n þig og spara þér hellgins tíma í lífinu þá mæli ég hiklaust með markþjálfun hjá Stínu!»

«Ég hvet alla til að prófa að fara til Stínu í markþjálfun. Hún tók mig í nokkra tíma og það var akkúrat það sem ég þurfti til að átta mig á hvað var mikilvægast á þeim tímapunkti, blása mér eldmóð í brjóst og keyra á krefjandi verkefni sem höfðu vaxið mér í augum.»

«"Eftir að hafa farið í markþjálfun hjá Stínu gengur mér betur að skipuleggja mig. Mín helsta áskorun var að ná að halda ótal boltum á lofti ásamt því að koma á jafnvægi milli einkalífs og vinnu. Lausnin var frekar einföld þegar ég áttaði mig á henni. Púslin voru í raun öll á borðinu en Stína fékk mig til að raða þeim rétt saman. Ég mæli hiklaust með markþjálfun fyrir þá sem vilja skipuleggja sig betur."»

«Eftir að hafa komið í markþjálfun til Kristínar finn ég hversu mikið sjálfsstjórnin hefur aukist og er farin að tengja betur saman hugsanir mínar og tilfinningar. Það er ótrúlega mikið frelsi sem fylgir því að taka meðvitaða ákvörðun um að framkvæma eitthvað algjörlega út frá sjálfri mér og losna þar með við streituna sem fylgir efanum um hvort sú ákvörðun sé rétt. Í fyrsta skipti í langan tíma er ég einbeittari, markvissari og með skýr markmið.. Ég fann strax að þarna var kona sem gat hjálpað mér og þess vegna, með mikilli sannfæringu, mæli ég hiklaust með Kristínu sem markþjálfa.»

Back to Top