Ég heiti Kristín Þórsdóttir en er alltaf kölluð Stína. Ég er svo lánsöm að hafa 6 börn í mínu lífi, 3 sem að ég gekk með sjálf og 3 sem að ég fékk til mín þegar að ég kynntist manninum mínum. Ég er elst af fjórum systkinum og því vön stórri fjölskyldu með öllu því sem fylgir, það er allavegana á hreinu að mér á ekki eftir að leiðast. Ef ég ætti að lýsa persónuleika mínum þá væri það svona: heiðarleg, traust, hress, skapstór, mjög kaldan húmor, opin, skapandi, pínu skrítin, náttúrubarn, ljóðaunnand og elska að vera í hópi fólks en líka ein með sjálfri mér. Ég elska ekkert meira en að hlæja af lífs og sálarkröftum en er nú samt langt frá því að vera fullkomin, en hvað er svo sem fullkomnun? Ég er best geymd í sveitinni þar sem að ég fæ að vera úti í náttúrunni.

Ég útskrifaðist sem hársnyrtir árið 2007 og var handviss um að þar væri ég komin til að vera. Þegar ég var þrítug fékk ég Dale Carnegie námskeið í afmælisgjöf. Ástæða þess var að ég gat ekki staðið fyrir framan fleiri en þrjár manneskjur í einu án þess roðna og stama. Ég sé alls ekki eftir því, enda hef ég ekki þagnað síðan.

Maðurinn minn heitinn, Kiddi, greindist með krabbamein árið 2006 og er óhætt að segja að sá tími hafi þroskað mig mikið sem manneskju. Við vorum öflug að vekja athygli á ungu fólki og krabbameini og sat ég í stjórn Krafts í tvö ár, þ.á.m. eitt ár sem varaformaður. Kiddi lést árið 2017 eftir 11 ára baráttu. Í dag starfa ég meðal annars sem markþjálfi hjá Krafti.

Haustið 2017 var ég stödd á tímamótum og vissi ekki hvaða stefnu ég ætti að taka í lífinu. Ég hafði lengi hugsað um að fara í nám en vissi ekki hvað það ætti að vera. Það var þá sem að vinkona mín sagði mér frá markþjálfunarnámi hjá Evolvia. Mér fannst ég ekki hafa neinu að tapa og skráði mig í námið. Í dag er ég útskrifaður ACC markþjálfi.

Ég fór einnig í framhaldsnám í markþjálfun í Evolvia. Í febrúar 2019 ákvað ég að fara læra að verða sexcoach, kynlífsmarkþjálfi. Ég var í 2 ár í fjarnámi í Sexcoachu og útskrifaðist þaðan í febrúar 2021. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á öllu sem viðkemur kynlífi og þegar ég var yngri langaði mig til þess að vera kynfræðingur. Þarna fór ég aðra leið og lét draum minn rætast. Mér finnst mikilvægt að tala opinskátt um kynlíf og ég hef lært það nú í starfi mínu hvað það er mikilvægt. Það gleður mig að geta hjálpað fólki með allt sem viðkemur að kynlífi.

Sumarið 2019 stofnaði ég fyrirtækið mitt Eldmóður fræðslusetur ehf. Ég er ótrúlega stolt af því að fá að vera partur af Lífsgæðasetri St. Jó í Hafnarfirði, en þar er ég með skrifstofuna mína.

Einnig er ég kennari í Móum, Móar studio, og er þar með tíma og námskeið. Í Móum fær maður rými til að vera allskonar og öllum er fagnað. Ég er þakklát fyrir að vera partur af því samfélagi.

Lífið er allskonar og ég hef svo sannarlega upplifað margt. En minn ásetningur fyrir lífið er að taka það góða úr því slæma. Ég hef öðlast mesta lærdóminn út úr erfiðleikum sem ég hef gengið í gegnum og hef reynt að nýta mér það í starfi mínu.

Það er minn eldmóður að aðstoða fólk við að vaxa og ná markmiðum sínum.

– Stína

Tímabókanir í síma: 693-7224 eða sendu mér fyrirspurn.